Júlíana - hátíð sögu og bóka

Hátíðin er tileinkuð Júlíönu Jónsdóttur sem var fyrst kvenna á Íslandi að gefa út bók og fá sett upp leikrit eftir sig

 
baekur.png
 
Untitled design (7).png

Júlíana Jónsdóttir 1838 - 1917

 

Júlíana Jónsdóttir fæddist þann 27. mars 1838 á Búrfelli í Hálsasveit í Borgarfirði. Hún ólst upp hjá móðurafa sínum, Samsoni Jónssyni og konu hans Þorbjörgu Þorsteinsdóttur að Rauðsgili og minntist hún æskuáranna með hlýju.

Júlíana vann lengi sem vinnukona í Akureyjum á Breiðafirði eða í 14 ár en í kringum 1874 er hún sögð flytja í Hólminn. Þar vinnur hún við ýmis störf m.a. sem kaupakona auk þess að sinna sjúkum og barnagæslu. Um það leyti sem hún flytur í Hólminn er sett upp leikfélag í tengslum við fjáröflun við byggingu kirkjunnar en Júlíana hreifst mjög af leikstarfseminni og lék sjálf. Þá gekk hún sömuleiðis til liðs við nýstofnað söngfélag og kynntist hún á Stykkishólms árum sínum hinu öfluga félags- og menningarlífi sem bærinn bauð upp á.

Það má segja að Júlíana hafi verið ákveðinn brautryðjandi að því leytinu til að fyrsta ljóðabók hennar, Stúlka, er sú fyrsta sem er gefin út eftir konu á Íslandi en alls voru gefnar út tvær ljóðabækur eftir hana. Stúlka var gefin út á Akureyri árið 1876 en sú seinni, Hagalagðar, var gefin út í Winnipeg árið 1916. Þá var hún einnig fyrst kvenna á Íslandi til að fá leikrit sett upp eftir sig en það var leikritið Víg Kjartans Ólafssonar sem var sýnt í Stykkishólmi veturinn 1878 til 1879.

Júlíana flyst um 1885 til Vesturheims og lést þar árið 1917 ógift og barnlaus, 79 ára að aldri. Í ljóðabók hennar, Hagalagðar, er ljóst að hún hugsar hlýtt heim á æskustöðvarnar auk þess sem greina má heimþrá og virðingu fyrir landinu. Líklega var sú ljóðabók sú fyrsta eftir íslenska konu sem kom út í Kanada. Þessi merka skáldkona var þannig langt á undan sinni samtíð og ruddi brautina fyrir þær konur sem á eftir komu.

Frekari upplýsingar um Júlíönu og ljóð hennar má finna í bók Helgu Kress, Stúlka, sem kom út árið 1997.

Birt með góðfúslegu leyfi Helgu Kress